29.3.2007 | 12:02
Um kvenfólk og brennivín
(Fréttatilkynning frá Byggðasafni Árnesinga.)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 22:20
Verður spaugsstofan send út frá Litla-Hrauni næstu tvö árin?
Mér fannst fínn þáttur spaugsstofunnar áðan. En svo þurftu þeir endilega að brjóta lög. Í lok þáttarins var þjóðsöngurinn fluttur með nýjum texta. Þá rifjaðist upp fyrir mér stórgóð bíómynd Hrafns Gunnlaugssonar "Okkar á milli í hita og þunga dagsins" sem fjallaði um miðaldra kalla á tímamótum í tvennum skilningi. Þar var þjóðsöngurinn djassaður og þjóðin fór á annan endann. Alþingi samþykkti svo í kjölfarið lög nr. 7 frá árinu 1983, ÞJóðsöngur Íslendinga.
Og nú er spurningin bara þessi: Verða snillingarnir Sigurður Sigurjónsson, Ranndver Þorláksson, Pálmi Gestsson, Karl Ágúst Úlfsson og Örn Árnason nágrannar mínir næstu tvö árin? Í fangelsinu Litla-Hrauni? Það er svosem allt í lagi ef þeir fá leyfi til að framleiða spaugstofuna þar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2007 | 23:57
Ingólfur Guðnason
Anna og Ingólfur bjuggu yfir sparisjóðnum í svaka stórri íbúð.
Ingólfur var skemmtilegur kall. Hann var líka pípukall. Hann var ræðinn og áhugasamur um nánungann. Ingólfur var spaugari. Mér er minnistætt þegar ég var með foreldrum mínum á Hvammstanga í ágúst 1980 og við fórum í bíltúr út í Vesturhóp. Obba hin móðursystirin líka. Ingólfur var heima í sparisjóðnum og fékk þannig smá hvíld frá gestunum að sunnan. - Og þegar við komum á Tangann aftur úr bíltúrnum sagði Ingólfur okkur þau stórmerku tíðindi að Hekla væri farin að gjósa. O, trúið ekki öllu sem hann segir!sagði þá Obba hlæjandi. Kveikt var á útvarpinu og það fyrsta sem í útvarpinu heyrðist var að Hekla væri farin að gjósa og ferðamannastraumurinn lægi austur að Heklu. Hvað er þetta! Er sjálft útvarpið gengið í samsæri með mér um að ljúga að þér Obba?spurði þá Ingólfur. Svona var spaugarinn Ingólfur.
Ingólfur var hreppstjóri. Hann var líka í hreppsnefndinni. Hann var vinsæll. Ingólfur skammaði um tíð þingmenn kjördæmisins fyrir að vinna ekki vinnuna sína. Ingólfur var þessvegna kosinn á þing. Hann féll svo af þingi.
Anna og Ingólfur fluttu til Reykjavíkur árið 1995. Önnu og Ingólf var gaman að heimsækja í Laugarteiginn. Hjá Önnu og Ingólfi var gaman að verða veðurtepptur.
En við lifum víst ekki endalaust. Ingólfur lést af völdum krabbameins þann 14. mars 81 árs að aldri. Ég, eins og margir aðrir munu sakna hans. Jarðarförin var í gær 22. mars. Mjög virðuleg og falleg athöfn þar sem Álftagerðisbræður voru í aðalhlutverki. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu.
Blessuð sé minning Ingólfs Guðnasonar. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að hann skuli vera farinn. Hugur minn er hjá Önnu og þeirra niðjum.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.3.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 21:00
Sandvíkurhreppur er ennþá til!
Áríðandi tilkynning frá Selfossveitum kom mér í reglulega gott skap í dag. Tilkynningin er svona:
21.3.2007 |
Heitavatnslaust verður aðfaranótt fimmtudags og fram eftir degi |
Lokað verður fyrir heitt vatn að Stokkseyri, Eyrarbakka og hluta Sandvíkurhrepps frá miðnætti í kvöld, aðfaranótt fimmtudagsins 22. mars og fram eftir degi, vegna vinnu við stofnlögn við Eyrarbakkaveg. |
Fyrir ári var mér nefnilega í tíu síðna bréfi frá Sveitarfélaginu Árborg tjáð á fimmtán stöðum í bréfinu að ekki mætti nota orðið Sandvíkurhreppur um þann hluta Árborgar sem áður tilheyrði Sandvíkurhreppi.
Þetta eru því frábær tilkynning frá sveitarfélaginu. Heitavatnsleysi í nokkrar klukkustundir er bara smáatriði miðað við þessi góðu sinnaskipti hreppsnefndarinnar sem semsagt hefur hætt við að útrýma Sandvíkurhreppi. Æðislegt!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2007 | 14:46
Ný verslun á Eyrarbakka
Stórtíðindi urðu í hinum forna verslunarstað Eyrarbakka í morgun. Klukkan 9 opnaði nefnilega ný verslun í þorpinu.
Sú var tíðin önnur þegar Guðlaugur Pálsson kaupmaður opnaði sína verslun í desember 1917. Þá voru 11 verslanir á Eyrarbakka.
Um nýju verslunina má fræðast á fréttavefnum www.eyrarbakki.is
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2007 | 23:24
Smánudd á Skólavörðustígnum
Það telst ekki frétt þó bakkað sé á annan bíl, vegg, grindverk, burðarsúlu eða ljósastaur. Það að bakka á tré telst varla frétt. Eftir atvikum er það frétt ef bakkað er á fólk.
En að bakka bílnum svona langt upp eftir trénu er eiginlega frétt. Með reglulegu millibili berast fréttir af óhöppum fólks sem bakkar ýmist út í skurð, oní vötn og skelfilegar geta fréttirnar orðið ef bílum er bakkað ofan í hafnir.
Ég hef eins og allir normal bílstjórar einhverntímann gert mig sekan um að sýna aðgæsluleysi við að bakka með tilheyrandi smávægilegu véseni - án þess að það yrði að frétt.
Þessu óhappi á Skólavörðustígnum skal taka létt og vonandi að bílstjórinn og farþegi hans beri ekki sálarlegan skaða af þeirri miklu athygli sem þetta trjáklifur olli.
Eitt sinn seldi ég lítinn bíl til ungmennis. Tveimur vikum síðar barst hann í fréttirnar þegar hann lenti í nuddi við stærsta kranabílinn á Selfossi, "Litli og stóri í árekstri" var fyrirsögnin.
Þúsund sinnum frekar vil ég svona fréttir úr umferðinni en fréttir af alvarlegum bílslysum.
Bakkað yfir tré á Skólavörðustíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2007 | 14:04
Doddi í Stekkum
Ég var að koma úr jarðaför sveitunga míns Þorvarðar Guðmundssonar í Stekkum sem lést sl. helgi af völdum krabbameins 63 ára að aldri. Ef ég ætti að lýsa honum í nokkrum orðum þá væru það orð eins og hæglátur, húmoristi, traustur og hjálpsamur. Hans verður sárt saknað í sveitinni minni og ekki síst meðal fjölskyldunnar í Stekkum.
Blessuð sé minning Dodda í Stekkum.
Um Dodda birtust greinar í Mogganum. Ein þeirra eftir föður minn Pál Lýðsson.
"Meira en gott nágrenni bar vináttu okkar Þorvarðar Guðmundssonar uppi. Feður okkar, Guðmundur Hannesson í Stekkum og Lýður í Sandvík, voru fóstbræður. Að föður sínum látnum kom Guðmundur barnungur í fóstur frá Stóru-Sandvík til föðurforeldra minna, Guðmundar hreppstjóra Þorvarðarsonar og Sigríðar Lýðsdóttur. Þar ólst hann upp fram á fullorðinsár er hann hóf búskap í Stekkum, kvæntur ungri konu sinni, Önnu Valdimarsdóttur.
Þorvarður fékk að reyna það sama og faðir hans, föðurmissi á unga aldri. Til þess var tekið hversu samhent Stekkafjölskyldan var í þessum sára missi. Allir unnu eftir bestu getu til að halda heimilinu saman. Vissi ég að Þorvarður sást fimm ára gamall með skóflu í hendi úti í fjósi og vann þar eftir getu sinni. Fljótt hóf Anna búskap með öðrum öndvegismanni, Lárusi Gíslasyni frá Björk, og blómstraði áfram búskapur þessarar víkingskonu. Þorvarður hóf nám í bifvélavirkjum sem hann lauk með sóma um tvítugt. Hann náði það miklu áliti hjá meistara sínum í iðninni, Þórmundi Guðmundssyni, verkstæðisformanni KÁ, sem kvað Þorvarð snilling að sjá út bilanir. Þá réð þar hyggjuvitið eitt; tölvutæknin í bilanaleit átti enn langt í land.
Þorvarður var orðinn vel reyndur sem bifvélavirki er Lárus stjúpfaðir hans féll skyndilega frá 1963. Brátt réðst það svo að hann gekk inn í félagsbú í Stekkum með móður sinni og Guðmundi bróður sínum, Lárussyni. Var það farsæl lausn. Þeir Guðmundur voru báðir vel gerðir fyrir búskap, auk þess færir vélamenn, eins og bændur þurfa jöfnum höndum að vera. Jörðina tókst þeim að stækka um helming með kaupum á grannjörðinni, Eystra-Stokkseyrarseli og allt þetta varð undirstaða þess að stórbúskapur varð í Stekkum í áranna rás. Nýtt fjós var byggt upp úr 1970, það stækkað nú fyrir skemmstu og vélbúnaður þannig settur niður að þeir bræður réðu vel við þá stækkun sem fólst í kúabúi með um 300 þúsund lítra ársframleiðslu.
Þorvarður í Stekkum var ræktunarmaður, hann kunni vel skil á því hvaða vélar hentuðu til að brjóta landið, valdi ræktunarspildur með kostgæfni, ræsti þær vel fram svo þessi erjan bar ríkan ávöxt. Út á við bar ekki mikið á honum í félagsstörfum, hann sóttist ekki eftir mannaforráðum. En innan sveitar var hann ákaflega félagslyndur, skoraðist þar hvergi undan störfum. Var gjaldkeri Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps um árabil og tók virkan þátt í starfsemi Búnaðarfélagsins. Var hann vélavörður þess hin síðustu ár.
Þá var hann hjálparhella sveitunga sinna hvenær sem bilun bar að. Vani var að kalla á Dodda í Stekkum áður en meiri aðilar yrðu ákallaðir. Einföldustu hluti leysti hann skjótt. Mér er í minni er ég átti eitt sinn Fiat-fólksbíl, vondan og vanstilltan. Í því ástandi var hann er Dodda bar að garði. Ég bað hann að líta ofan í vélina. "Sæktu lykil númer sautján," sagði hann strax og skrúfaði svo einn bolta til. Bíllinn gerbreyttist við þessi umsvif.
Dodda var gefið létt geð og það vissu kunnugir að hann átti frábæran húmor, góðviljaðan og án þess að særa neinn. Vandamálum gat hann vikið frá með einni hnyttinni athugasemd. Stórfjölskylda hans var honum allt og einnig nágrennið sem ekki vissi af vinsælli manni. Nú á hann góða heimvon til foreldra sinna og fyrir honum mun upplokið verða til æðra heims með öðrum lyklum en honum var tamast að beita.
Ég votta systkinum hans og öðrum aðstandendum dýpstu samúð mína.
Páll Lýðsson. "
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 21:58
Endurtekin umræða um orðið sem menn vilja helst ekki segja
Undarleg er hún þessi umræða um "klám". Ég ætla að voga mér að leggja orð í belg.
Samkvæmt Íslenskri orðabók Menningarsjóðs frá 1963 þá merkir orðið klám "1 grófgert, illa unnið verk. 2 gróft orð, klúryrði (um kynferðismál o.þ.h.): klámrit." Og í dag er mikið talað um þetta "klám" sem hinum vísa manni Sigurði Líndal tókst að skilgreina sem "loðið og teyjanlegt hugtak". Bloggarar og almenningur þrátta mikið um þetta fyrirbrigði sem hefur alveg frá því ég fékk hvolpavit verið einhvernveginn handan við hornið og í raun auðvelt að sækja.
Á mínu æskuheimili var örlítið um að kaupastrákarnir væru að pukrast með "þessi blöð" sem falin voru undir dýnunni. Án þess að ég hafi svosem sannreynt það tel ég að breyting hafi orðið upp úr 1980 þegar vídeóvæðing hófst og enn aftur þegar netið kom.
Með reglulegu millibili hefur blossað upp umræða um klám. Þegar ég var lítill las ég Öldina okkar og góðar bækur Gunnars M. Magnúss um styrjaldarárin spjaldana á milli og jafnvel áður en ég skildi merkingu orða eins og "mök", "samræði", "nauðgun", "kynlíf" og "klám". Merkilegt þegar hugsað er til baka! En eitt var víst að Lýður litli las þetta og túlkaði svo að eitthvað vandamál væri á ferðinni. Og á 7. áratugnum var deilt um bíómynd sem sýnd var í Hafnarbíói, Veldi tilfinninganna, eða eitthvað þess háttar. Ýmsir fóru á taugum þegar söngleikurinn Hárið var sýndur í fyrsta sinn og leikararhópurinn klæðalaus í nokkrar sekúndur. Um 1980 var Pan-hópurinn í leðjuslag í klúbb nokkrum við Hlemm "Villta tryllta villa" og samkvæmt hinu "virta" tímariti Samúel sem ég las stundum á táningsárunum þá var víst mesta fjörið eftir slaginn og hópurinn, bæði stúlkur og piltar, spúluðu sig í portinu bak við - á klæðum Adams og Evu að sjáandi íbúum nærliggjandi fjölbýlishúsa. Á 9. áratugnum spruttu upp þessir klúbbar sem við köllum strippbúllur. Enn aftur um aldamótin síðustu og eftir það hefur verið rætt um netklámið sem er reyndar ekki nema að litlum hluta íslenskt. Þessi umræða núna sprettur af því að frmaleiðendur þessa "varnings" sem dafnar í krafti mikillar eftirspurnar og gloppóttra laga virtist ætla að sækja litla fallega landið okkar heim - til þess eins að skoða Gullfoss, Geysi, Bláa-lónið og Þjóðminjasafnið - og etv. spóka sig víðar um.
En hvað um það. "Klám hefur verið til um aldir". Klámumræða hefur blossað upp með reglulegu millibili og lognast útaf þess á milli. Hverju mun þessi umræða skila núna? Verður lögregluríkið eflt? Kemur netlöggan? Mér fyndist ekkert óeðlilegt við að lögreglan íslenska herti sig í þessum málum.
Og næst þegar þessi umræða kemur upp - um hvað verður deilt þá?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2007 | 15:34
Blaðalaus Eyrarbakki
Verið er að breyta söluskálanum á Eyrarbakka í kjölfar skipta á rekstraraðila OLÍS. Söluskálinn því lokaður í nokkra daga. Fyrir vikið lesa því Eyrbekkingar ekki Fréttablaðið og Blaðið þessa dagana. Blöð þessi hafa legið þar frammi en eru ekki borin í hús eins og tíðast í stærri þorpum.
Og svei mér þá - ef þorpsbúum hér líður ekki bara betur fyrir bragðið. Að þurfa ekki að lesa niðursoðnar fréttir í þágu eigenda þessara blaða með óaðlaðandi auglýsingum frá Bónus. Gott mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 18:58
Loka Selfyssingar þjónustuverum Eyrbekkinga og Stokkseyringa?
Haustið 1994 fór ég að venja komur mínar á Eyrarbakka. Þá var í bígerð að opna nýja grunnsýningu fyrir Byggðasafn Árnesinga í hinu aldna Kaupmannshúsi og það flókna verk var helsta verkefnið mitt þann veturinn.
Þá kynntist ég Eyrarbakka - og reyndar líka Stokkseyri þar sem Þuríðarbúð var minn vettvangur. Og í þessum þorpum var heilmikla vinnu að fá um þær mundir, amk tvær fiskvinnslur á Eyrarbakka og yfir Stokkseyri gnæfði hið stóra frystihús sem veitti atvinnu. Í báðum þorpunum sjoppur og KÁ verslanir. Á Eyrarbakka voru menn nýlega búnir að missa elsta kaupmann í heimi á tíræðisaldri en sonardóttir hans rak verslunina áfram. Í báðum þorpunum voru Landsbankaútibú, heilsugæsla, elliheimili, pósthús, bókasöfn og skólar. Á Stokkseyri var strigapokagerð. Á Eyrarbakka álpönnuverksmiðja. Á Eyrarbakka fangelsið sem þá var verið að byggja við. Þar skorti aldrei víst hráefnið og margir hafa þar vinnu í dag. Árið 1995 voru fimm ár liðin frá því brúin góða yfir Ölfusárósa var opnuð og hafnirnar lagðar niður í kjölfarið. Metnaðarfullir og ákafir oddvitar og sveitastjórar ríktu á hvor sinni hreppskrifstofu. Heilbrigður hrepparígur var milli þorpana en báðir hreppsjóðirnir voru að sjálfsögðu tómir. Túrismi var lítill árið 1995 - öðruvísi en nú.
Nú eru liðin 12 ár og margt hefur breyst. Þorpin tvö orðin að svefnbæjum í stóru sveitarfélagi og vegalengdin á Selfoss styttist í huga manna. Meirihluti vinnuafls keyrir út fyrir þorpið sitt til vinnu á hverjum morgni. Og það er búið að loka KÁ-búðunum, Landsbankaútibúunum, pósthúsunum, heilsugæslunni að mestu, frystihúsunum, búið að selja þann litla kvóta sem eftir var, og í þorpunum báðum er búið að koma á fót stórum ferðamannastöðvum með veitingahúsin Fjöruborðið og Rauða-Húsið í fararbroddi. Hús byggt fyrir einokunarkaupmenn var gert að safni. Aðkomumenn komu lífi í stóra frystihúsið á Stokkseyri. Frysti- og iðnaðarhús eru í dag mörg hver notuð sem húsbíla- og tjaldvagnageymslur. Alpan fór til Rúmeníu.
þetta er kannski bölsýnislegt tal. En furðulegt nokk þá ríkir ekki kreppa í þessum þorpum. Íbúðarverð er hátt. Fólk sækir í að búa á Eyrarbakka og Stokkseyri. Menningin blómstrar. Ferðamenn af öllum sortum sækja veitingastaðina og menningartengdu ferðaþjónustuna, horfa á gömlu húsin á Eyrarbakka, hlusta á brimið og fuglakvakið. Íbúarnir hér láta sér það lynda að þjónustuverum fyrirtækjanna sem fyrrum voru ríkisfyrirtæki sé því sem næst lokað. Og hversvegna líður fólki hérna vel? Til að byrja með þá held ég að skýringuna sé að leita til þess að þorpin tvö eru fjaskaplega friðsæl. Í öðru lagi þá eru vegalengdirnar ekki farartálmar flestum sem bil eiga og bílpróf hafa. Það að aka frá Eyrarbakka á Selfoss er fyrirhafnarminna en fyrir Breiðholtsbúa að keyra í hverfi 101. Þessi þorp eru líka falleg þó ég segi sjálfur frá. Að lokum held ég að þorpin bæði hafi sterka staðarímynd sem gerir þau eftirsóknarverða búsetustaði. Staðarímyndin fellst ekki síst í gróinni sögu sem bæði þorpin eru rík af.
Mér finnst eins og einn aðili bölsótist út í góðærið í þorpunum á Eyrarbakka (og hér á ég við Eyrarbakka í gömlu merkingunni frá Þjórsárósum að Ölfusárósum). Hreppnefndin hefur verið með múður út í þorpin. Réttmæt krafa hefur verið um að aðstaða til skólahalds sé með sambærilegu sniði og á Selfossi. Það hefur ekki gengið þrautarlaust og í stað þess að byggja upp stóran skóla í því þorpi sem lengst skólahald hefur verið í Íslandssögunni er tekin sú stefna sem allir geta fallist á að byggja upp skólahald í báðum þorpunum. Gott og vel, - en það er allt og sumt. Í haust barst sú frétt að loka ætti bókasafninu á Eyrarbakka. Það var í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Því var svo frestað. En í Dagskránni í dag birtist svo eftirfarandi frétt:
"Árborg selur hús fyrir 60 m.kr. Árborg hefur sett nokkur hús á söluskrá og ætlar með því að ná inn 60 millj.kr. Um er að ræða húsnæðið við Skólavelli 3 á Selfossi og gömlu hreppskrifstofunar á Stokkseyri við Hafnargötu 10 og á Eyrarbakka við Túngötu 40. Þá á að selja húsið á gæsluvellinum við Dælengi á Selfossi."
Það á semsagt að setja á sölu þjónustuskrifstofur Sveitarfélagsins Árborgar á Eyrarbakka og Stokkseyri til að afla sveitarfélaginu fjár og væntanlega líka til að hagræða. Þannig að enn dregur úr þjónustustigi sveitarfélagsins í þorpunum tveimur, hús sem einnig hýsir einnarvikuafgreiðslu Landsbankans, atvinnuleysiskráningu verkalýðsfélaga og bókasafn annars þorpsins. Hvernig á að þjóna þeim sem ekki hafa bíl? Og það kostar að aka 26 kílómetra. Ekki veit ég hvað hreppsnefndin ætlar sér að gera meira en að selja. Á að loka þjónustuskrifstofunum eða stendur til að færa þær til? Á að selja, leigja og halda úti þessari þjónustu áfram? Hver veit hvað verið er að hugsa í Ráðhúsi Árborgar og ætli nokkur viti það hér í þorpunum? Undarlegt sambandsleysi. Ég biðst þó velvirðingar ef velkynntar tilkynningar sveitarfélagsins hafi etv. farið fram hjá mér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bloggsíða Lýðs
Tenglar
Les reglulega
- Davíð Oddsson bloggaði Nýjar fréttir af efnahagsmálunum
- Erlingur Brynjólfsson
- Víiisiirrrr
- Ofurbloggarar
- Sandvíkurhreppur og nágrannar
- Höfuðborg Suðurlands
- Aldís bæjarstjóri
- Guðmundur í Hraungerði
- Ingi Heiðmar
- Sigurður Sveinsson
- Jónas ritstjóri Penni með áratuga reynslu af þjóðfélagsrýni
- Dagblaðið Nei Óháð blað á netinu
- Margrét Hallmundsdóttir FORNLEIFAFRÆÐINGUR
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar