Strax?????

Er verslunin Strax til á Selfossi?  Það eru þá ný tíðindi sem ekki hafa farið hátt. Aldrei lýgur Mogginn!  Hér er væntanlega átt við Hornið eða Samkaup eða þá Samkaupstrax. Ég hefði skilið fréttina strax ef talað hefði verið um Hornið.
mbl.is Kveikt í blaðagámi á Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf gott veður á Eyrarbakka

Ég hefi verið latur að blogga undanfarið enda lítið um að blogga svosem.  En svona til að hreyfa aðeins við bloggsíðunni minni langar mig til að sýna ykkur, virðulegu lesendur, nokkrar ljósmyndir sem ég tók í hinum fallega miðbæ Eyrarbakka.

P1018701Efsta myndin sýnir hið einfalda og fallega Kaupmannstún eða Garðstún fyrir norðan Húsið og sunnan Túngötu.  Þar hefur einhver verktakinn lagt sinni dráttarvél óafvitandi þess að Kaupmannstúnið er samkvæmt aðalskipulagi Árborgar skilgreint sem almenningsgarður en ekki stæði fyrir vinnuvélar.  Vonandi er þetta bara undantekning, en hver skyldi eiginlega eiga þessa fallegu dráttarvél af gerðinni Massey Ferguson? Til vinstri er hið smekklega lógó Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka.

HúsiðMynd númer tvö hér til vinstri er tekin í átt að Húsinu á Eyrarbakka frá Túngötunni þ.e. frá norðri til suðurs.  Neðst á myndinni er hið gráa malbik Túngötunnar en efst er húsaröðin frá vinstri talið: Jónasarhús, fjósið, kolagreymslan, hjallurinn, Húsið, Assistentahúsið, Eyrarbakkakirkja, Eggjaskúrinn, Mikligarður, spennistöðin og Jerrys garage. Í vetur voru hreppskarlanir duglegir að moka göturnar þegar sjóaði.  Þá þurfti að moka snjónum af götunum og koma honum fyrir. Eðlilega var snjónum mokað inn á Garðstún. Við það rufu þeir grindverkið sem aðskildi túnið og götuna. Grindverkið var svosem ekki beysið fyrir en mikið svakalega er hreppurinn lengi að laga eftir sig.  Það yrði strax til bóta ef það sem eftir er af grindverkinu yrði fjarlægt.  En sennilega er sveitarfélagið það fátækt að það gerir ekki við grindverk á áberandi stað á Eyrarbakka.

HúsiðOg að lokum ætla ég að sýna ykkur ágætu lesendur mynd af einu merkilegasta húsi landsins.  Húsinu á Eyrarbakka sem nú er safn.  Húsið er 242 ára í ár.  Og sjóvarnargarðurinn er 207 ára núna á þessu ári.  Það er stórkostlegt að þessi merka bygging skuli enn vera til. Og, eins og myndlistarmaðurinn heyrnarlausi sagði um árið, eitthvað svo mannbætandi að rölta um þessa stílhreinu byggingu.  Húsið vekur að sjálfsögðu mikla athygli allra þeirra sem aka götuna á Eyrarbakka.   En aðrir telja sig þurfa meiri athygli hér á Eyrarbakka.  Af þeim sökum hafa einhverjir snillingar sett upp skilti beint fyrir framan Húsið, meiraðsegja tvö,  til að vísa villiráfandi túristum veginn að einu besta veitingahúsi landsins. Við veitingahúsið Rauða-húsið starfa nefnilega margir stílistar.  Þetta er því allt ofur eðlilegt - eða hvað finnst ykkur?

 


Forsendur réttar?

Fyrir 20 árum síðan var bóndi einn í Flóanum spurður í könnun á vegum Vegagerðarinnar hversu oft hann færi að jafnaði til Þorlákshafnar.  Svar bóndans var "Einu sinni á ári".  Og þá var hann aftur spurður: "En hvað færir þú oft til Þorlákshafnar ef brú kæmi á Ölfusárósa?"  Svar bóndans þá var "Tvisvar á ári".  Nú hef ég ekki kynnt mér skýrsluna en mikið svakalega kostar að gera þessi göng.  Á fyrstu árum síðustu aldar töluðu stjórnmálamenn gjarnan um að það vantaði járnbraut milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendis.  Ekkert varð úr því þar sem annað samgöngukerfi, vegir og bílar,  var byggt upp, auk strandsiglinga.  Við sem búum á meginlandi Íslands verðum enn um sinn að bíða eftir betra samgöngukerfi við þessa miklu verstöð okkar og náttúruperlu Vestmannaeyjar.


mbl.is Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ölfusárbrú við Selfoss lokuð á hverju kvöldi kl. 21 til 02

Undir röggsamri stjórn Óðins Jónssonar fréttastjóra er haldið uppi upplýsingum um vegi og færð um sunnlenska vegi og brýr.  Frá því í júní hefur mikilvæg frétt verið á textavarpi RUV síðu 144-1:

"Vegna framkvæmda við breikkun         
hringtorgsins við Ölfussárbrú verður  
brúnni lokað frá klukkan 21.00 eða níu
og til um 02.00 í kvöld. Ökumönnum er 
bent á að fara yfir ölfusárósabrú á   
Eyrabakkavegi á meðan á lokunum       
stendur.                              
Einnig er nú gaman að fá sér léttann  
bíltúr í góða veðrinu og fara         
Iðubrúnna yfir Hvítá við Laugarás. En 
semsagt Ölfusárbrú á Selfossi verður  
lokuð í kvöld frá klukkan níu og til  
að verða tvö í nótt. "

Mér finnst alveg ótrúlegt hvað það hefur tekið langan tíma að ganga frá nýja hringtorginu.  Verktakarnir hafa þurft að loka henni klukkan níu á hverju kvöldi í um mánaðartíma - nema ef skje kynni að þeir hjá útvarpinu nenni ekki að sinna sunnlenskum ferðalöngum og láti úreltar upplýsingar og gamlar fréttir daga uppi í textavarpinu. Það gæti þó verið!  Amk er töluverð umferð um Eyrarbakkaveginn eftir kl. níu á hverju kvöldi alla daga vikunnar sennilega sökum þessarar gömlu fréttar sem allir geta lesið í textavarpi sjónvarpsins.  


Rýmt fyrir nýjum miðbæ?

Ef skipulagssaga Selfoss er skoðuð kemur í ljós að aldrei hefur alvöru miðbær verið skipulagður á Selfossi.  Í upphafi kom brúin og á næstu áratugum voru byggð nokkur hús við vegi sem lágu frá brúnni og í austurátt og sömuleiðis risu hús sem lágu við veginn niður á Eyrarbakka.  Svona fimmtíu ár eftir að brúin var risin varð ákveðin sprengja á Selfossi, herinn kom og setti niður sína bragga,  jafnframt því sem mikill uppgangur var í fyrirtækjum sem þjónuðu sunnlenskum bændum. Íbúaaukning hefur verið stöðug á Selfossi og sér ekki fyrir endann á þeirri aukningu þrátt fyrir að landbúnaður eigi í vök að verjast.  Á Selfossi dafnar fjölbreytt atvinnulíf.  Nokkur fyrirtækjanna átti sitt athafnasvæði á því landsvæði sem í dag er kallaður miðbæjarskipulagsreitur.  Allar smiðjur Kaupfélags Árnesinga voru þar sem nú er Kjarninn verslunarmiðstöð. Einnig var Kaupfélagið eigandi mestalls svæðis sem er sunnan við pakkhúsið og voru þar lagerbraggar KÁ þegar ég var lítill og hús kaupfélagsstjórans Sigtún.  Einnig var á Selfossi lengi stundaður búskapur og voru ræktuð upp tún á skikum þar sunnan, á títtnefndum miðbæjarreit,  og í þessu vaxandi þorpi þótti ekki nema eðlilegt að frístundabændur ættu sína ræktuðu skika sem þeir ýmist leigðu eða áttu. Og við hlið veldis KÁ var íhaldið líka með sitt verslunarveldi sem var Höfn hf sem rak verslun í bogalögðu húsi og sláturhús þar bak við með viðeigandi túnskikum og myndarlegu framkvæmdarstjórahúsi Hafnartúni. Þannig að lengi vel var miðbær Selfoss einungis nokkur hús við veginn. Nýjar götur og síðar ný hverfi risu utan miðbæjar merkilegt nokk.

Svo leið tíminn. Um 1990 var samþykkt nýtt skipulag fyrir Selfosshrepp.  Ekki átti að gera nýjan miðbæ samkvæmt því skipulagi.  Þar átti að gera stóran almenningsgarð.  Af einhverjum ástæðum var aldrei farið af alvöru í þá framkvæmd að rækta upp alvöru almenningsgarð.  Svæðið var snyrt, braggar og aðrar byggingar KÁ fjarlægðar og lagður göngu- og hjólreiðastígur, sem og boltavöllur. Það var allt og sumt.  Dautt svæði. 

Ekki veit ég hvað hefði gerst ef Einar Elíasson hefði ekki keypt Hafnarlóðir þarna um árið.  Væri nokkuð verið að ræða um "nýjan miðbæ" í kjarna Selfoss? Væri þá ekki bara allt í friði og spekt?

Að mínu mati verður að marka þessu stóra svæði ákveðinn ramma.  Tillagan sem vann keppnina fyrr á þessu ári lofar góðu. Ljótt er ef sú tillaga hefur verið tekin í meðferð af lóðaeigendum. Græn svæði verða að vera til staðar í fallegum miðbæ. Hús með merka fortíð skal varðveita.  Áður hef ég skrifað um þessa áráttu ýmissa hér um slóðir að vilja byggja margra hæða blokkir í hinum fallega flata Flóa.  Árátta þessi er mér óskiljanleg.  Burt með þann fíflagang.


mbl.is Rýmt fyrir nýjum miðbæ á Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyþór meðhjálpari í annari kirkju en sinni sóknarkirkju

Eyþór Arnalds er ekki sóknarbarn í Selfosskirkju.  Hreiðurborg í Sandvíkurhreppi tilheyrir Eyrarbakkakirkjusókn. 

Það er svolítið flókið að segja frá kirkjulífi íbúa Sandvíkurhrepps. Ég geri tilraun:

Fyrr á tímum heyrði Hreiðurborg til Kaldaðarnesskirkju eins og flestir bæja í Sandvíkurhreppi. Aðeins austasti hluti hreppsins átti sókn til Laugardælakirkju í Hraungerðishreppi.  Þegar Kaldaðarneskirkja var aflögð í upphafi 20. aldar var sóknarbörnum skipt milli sókna, austur- og miðhluti Sandvíkurhrepps lagðist til Laugardælakirkju, vestasti hlutinn, Kaldaðarness- og Flóagaflshverfin lögðust til Eyrarbakkakirkjusóknar en Sandvíkurtorfan lagðist til Stokkseyrarsóknar þannig að frá fæðingu til 26 ára aldurs var ég sóknarbarn í kirkju sem ég aldrei sótti.  Margoft fór ég hinsvegar í Selfosskirkju og þar fermdist ég.  Séra Magnús Guðjónsson prestur á Eyrarbakka skírði mig þó mig rámi ekkert í þá ógleymanlegu athöfn eftir því sem séra Magnús og frú Anna segja mér í hvert sinn sem ég hitti þau heiðurshjón.

Ég held að Eyrbekkingar séu ekkert svekktir út í Eyþór Arnalds þó hann hjálpi kollega sínum í sellóleik við messuhald á Selfossi.  Sjálfur söng ég hjá Glúmi í Kór Selfosskirkju um fimm ára skeið án þess að séra Úlfar eða organistarnir hefðu um það athugasemdir.  Ég hefi hinsvegar mikinn áhuga á að dressa sr. Gunnar og Eyþór í Hreiðurborg upp í viðeigandi 19. aldar fatnað og leyfa þeim að halda selló-tónleika í stásstofu Hússins á Eyrarbakka við eitthvert sparitækifærið.


mbl.is Eyþór Arnalds nýr meðhjálpari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spengja spakk

Fyrir utan innsláttarvillu Moggans er fréttin að sjálfsögðu hörmuleg eins og allar fréttir af manntjóni.

Þær geta nefnilega verið skemmtilegar þessar innsláttarvillur sem besta fólk getur gert sig sekt um.  Hvar er Morgunblaðspúkinn?

Ég hef gert mig sekan um skemmtilegar innsláttarvillur.  Eitt sinn ritaði ég fréttatilkynningu fyrir virðulega stofnun sem ég veiti forstöðu og endaði þær allar með lokaorðunum "með bestu keðju, Lýður Pálsson." 

Spengja sprakk í Beirút

Líbanskur maður lést og þrír Sýrlendingar særðust er bílasprengja sprakk fyrir utan verksmiðju í norðurhluta Beirút í dag. Maðurinn var verkstjóri í verksmiðjunni sem fyllti á súrefniskúta. Miklir eldar brutust út í kjölfar sprengingarinnar.

 

 


mbl.is Spengja sprakk í Beirút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún á afmæli í dag!

Elínborg og hundurÞessi mynd var tekin í túninu á Þorfinnsstöðum í Vesturhópi á 5. áratug síðustu aldar og sýnir heimasætuna yngstu á bænum með fjárhundinum. 

Heimasætan heitir Elínborg Guðmundsdóttir og er móðir mín.  Hún fæddist á þessum bæ fyrir norðan þann 28. maí 1937 og er því óhjákvæmilega, hvort sem henni líkar það betur eða verr, sjötug í dag. 

Mikil umskipti urðu í hennar lífi er hún kynntist við Menntaskólann að Laugarvatni strák úr Flóanum nefnilega honum föður mínum.  Þau hafa í yfir  fjörutíu ár verið bændur í Litlu-Sandvík.

 

Það eru ekki margir sem vita það að mamma er ágætur ljósmyndari.  Lesendum þessa bloggs ætla ég að leyfa að njóta þessarar myndar sem tekin var við heyhirðingu á Kotferjutúni sumarið 1981.

Kotferjuheyskapur81-2Mynd þessi sýnir hinn algenga baggaheyskap sem tíðkaðist í íslenskum sveitum frá ca. 1975 til 1990 er rúlluheyskapur varð hið algengasta heyskaparform hérlendis. Ljósmyndin sýnir svo ekki sé um villst að Páll Lýðsson er spretthlaupari þegar svo ber undir.  Hér hleypur hann ásamt tveimur kaupamönnum Bjarka Sverrissyni (t.vinstri), núverandi starfsmanns Reiknistofu bankanna, og Kolbeini Gunnarssyni, sem nam rafmagnsverkfræði. Og hirðingin gekk fljótt og vel.  Undir stýri Nýja-Massa er Sigurjón Örn Ólason, sem nú er flugvélavirki. Á vagninum glittir í systur mína Aldísi Pálsdóttur.  


Einn bóndi? Bull!

Einn bóndi já?  En margir alþingismannanna eru mjög tengdir landbúnaði.  Guðni Ágústsson, bændasonur, á nokkra bræður og systur sem eru bændur, Bjarni Harðar er barn garðyrkjubænda, Björgvin viðskiptaráðherra er búsettur í blómlegri landbúnaðarsveit, Kjartan Ólafsson er fyrrum garðyrkjuráðunautur og gott ef ekki vel bara bóndi líka, Árni frá Arnarbæli er með lögheimili sitt í fallegum kartöflubæ við sæinn.

Ef við lítum út fyrir Suðurkjördæmið þá kemur reyndar í ljós að fáir eru bændur eða með bein tengsl í landbúnaðinn.  Guðlaugur Þór Þórðarson hefur þó eitt sinn kosið í baðstofu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er hobbýbóndi á Þurá í Ölfusi.   Jón Bjarnason og Steingrímur Jóhann Sigfússon eru hreinræktaðar afurðir bændafólks og Jón fyrrum bændaskólastjóri.  Ingibjörg Sólrún er með djúpar rætur í Flóann og eflaust að  hún verður kuskuð til af Haugsfrændgarðinum í fjölskylduboðum ef eitthvað verður farið að bylta í landbúnaðargeiranum.  Eflaust má bæta við þennan lista margvíslegum tengslum þessa ágæta fólks sem kosið hefur verið til að halda utan um þetta bákn Ísland.

Öðruvísi var þetta fyrir öld síðan og fyrr þegar bændur voru í raun þeir einu sem höfðu kosningaréttinn. Þeir völdu þá bestu úr sínum hópi og þá gjarnan þá sem önnur embætti höfðu í leiðinni, svo sem presta, sýslumenn og svo framvegis.  Fyrsti alþingismaður Árnesinga var t.d. sýslufulltrúi. Hann var meiraðsegja Johnsen. Eflaust með skepnur líka. 

 


mbl.is Einn bóndi eftir á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óverðskuldað

Yfirstrikanir yfir Björn og Árna eru óverðskuldaðar. 

Björn hefur staðið sig mjög vel í baráttunni gegn harðsvíruðum auðmönnum sem ekki hafa hikað við að bjóða valdamiklum stjórnmálamönnum mútur ef eitthvað er að marka Davíð Oddsson og Illuga Gunnarsson. Ekki veit ég hvernig hin nýja væntanlega ríkisstjórn tekur á þeim málum.  Sennilega geta þeir Baugsmenn leyft sér allt hér eftir ef eitthvað er að marka þessar tvær Borgarnesræður sem Ingibjörg Sólrún hefur flutt.

Árni hefur afplánað sína refsingu fyrir brot sem hann framdi á sínum tíma.  Hann náði góðum árangri í prófkjöri.  Útstrikanir óskiljanlegar. 


mbl.is Árni og Björn færast niður um eitt sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bloggsíða Lýðs

Hver er Lýður?

Lýður Pálsson
Lýður Pálsson

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka

lydurp@hotmail.com (ég sjálfur)

lydurp@byggdasafn.is (safnstjórinn)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband