10.3.2007 | 14:04
Doddi í Stekkum
Ég var að koma úr jarðaför sveitunga míns Þorvarðar Guðmundssonar í Stekkum sem lést sl. helgi af völdum krabbameins 63 ára að aldri. Ef ég ætti að lýsa honum í nokkrum orðum þá væru það orð eins og hæglátur, húmoristi, traustur og hjálpsamur. Hans verður sárt saknað í sveitinni minni og ekki síst meðal fjölskyldunnar í Stekkum.
Blessuð sé minning Dodda í Stekkum.
Um Dodda birtust greinar í Mogganum. Ein þeirra eftir föður minn Pál Lýðsson.
"Meira en gott nágrenni bar vináttu okkar Þorvarðar Guðmundssonar uppi. Feður okkar, Guðmundur Hannesson í Stekkum og Lýður í Sandvík, voru fóstbræður. Að föður sínum látnum kom Guðmundur barnungur í fóstur frá Stóru-Sandvík til föðurforeldra minna, Guðmundar hreppstjóra Þorvarðarsonar og Sigríðar Lýðsdóttur. Þar ólst hann upp fram á fullorðinsár er hann hóf búskap í Stekkum, kvæntur ungri konu sinni, Önnu Valdimarsdóttur.
Þorvarður fékk að reyna það sama og faðir hans, föðurmissi á unga aldri. Til þess var tekið hversu samhent Stekkafjölskyldan var í þessum sára missi. Allir unnu eftir bestu getu til að halda heimilinu saman. Vissi ég að Þorvarður sást fimm ára gamall með skóflu í hendi úti í fjósi og vann þar eftir getu sinni. Fljótt hóf Anna búskap með öðrum öndvegismanni, Lárusi Gíslasyni frá Björk, og blómstraði áfram búskapur þessarar víkingskonu. Þorvarður hóf nám í bifvélavirkjum sem hann lauk með sóma um tvítugt. Hann náði það miklu áliti hjá meistara sínum í iðninni, Þórmundi Guðmundssyni, verkstæðisformanni KÁ, sem kvað Þorvarð snilling að sjá út bilanir. Þá réð þar hyggjuvitið eitt; tölvutæknin í bilanaleit átti enn langt í land.
Þorvarður var orðinn vel reyndur sem bifvélavirki er Lárus stjúpfaðir hans féll skyndilega frá 1963. Brátt réðst það svo að hann gekk inn í félagsbú í Stekkum með móður sinni og Guðmundi bróður sínum, Lárussyni. Var það farsæl lausn. Þeir Guðmundur voru báðir vel gerðir fyrir búskap, auk þess færir vélamenn, eins og bændur þurfa jöfnum höndum að vera. Jörðina tókst þeim að stækka um helming með kaupum á grannjörðinni, Eystra-Stokkseyrarseli og allt þetta varð undirstaða þess að stórbúskapur varð í Stekkum í áranna rás. Nýtt fjós var byggt upp úr 1970, það stækkað nú fyrir skemmstu og vélbúnaður þannig settur niður að þeir bræður réðu vel við þá stækkun sem fólst í kúabúi með um 300 þúsund lítra ársframleiðslu.
Þorvarður í Stekkum var ræktunarmaður, hann kunni vel skil á því hvaða vélar hentuðu til að brjóta landið, valdi ræktunarspildur með kostgæfni, ræsti þær vel fram svo þessi erjan bar ríkan ávöxt. Út á við bar ekki mikið á honum í félagsstörfum, hann sóttist ekki eftir mannaforráðum. En innan sveitar var hann ákaflega félagslyndur, skoraðist þar hvergi undan störfum. Var gjaldkeri Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps um árabil og tók virkan þátt í starfsemi Búnaðarfélagsins. Var hann vélavörður þess hin síðustu ár.
Þá var hann hjálparhella sveitunga sinna hvenær sem bilun bar að. Vani var að kalla á Dodda í Stekkum áður en meiri aðilar yrðu ákallaðir. Einföldustu hluti leysti hann skjótt. Mér er í minni er ég átti eitt sinn Fiat-fólksbíl, vondan og vanstilltan. Í því ástandi var hann er Dodda bar að garði. Ég bað hann að líta ofan í vélina. "Sæktu lykil númer sautján," sagði hann strax og skrúfaði svo einn bolta til. Bíllinn gerbreyttist við þessi umsvif.
Dodda var gefið létt geð og það vissu kunnugir að hann átti frábæran húmor, góðviljaðan og án þess að særa neinn. Vandamálum gat hann vikið frá með einni hnyttinni athugasemd. Stórfjölskylda hans var honum allt og einnig nágrennið sem ekki vissi af vinsælli manni. Nú á hann góða heimvon til foreldra sinna og fyrir honum mun upplokið verða til æðra heims með öðrum lyklum en honum var tamast að beita.
Ég votta systkinum hans og öðrum aðstandendum dýpstu samúð mína.
Páll Lýðsson. "
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:07 | Facebook
Um bloggið
Bloggsíða Lýðs
Tenglar
Les reglulega
- Davíð Oddsson bloggaði Nýjar fréttir af efnahagsmálunum
- Erlingur Brynjólfsson
- Víiisiirrrr
- Ofurbloggarar
- Sandvíkurhreppur og nágrannar
- Höfuðborg Suðurlands
- Aldís bæjarstjóri
- Guðmundur í Hraungerði
- Ingi Heiðmar
- Sigurður Sveinsson
- Jónas ritstjóri Penni með áratuga reynslu af þjóðfélagsrýni
- Dagblaðið Nei Óháð blað á netinu
- Margrét Hallmundsdóttir FORNLEIFAFRÆÐINGUR
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.