Færsluflokkur: Dægurmál

Íslenskt "egg" selt á 1,5 milljónir króna?

Að loknu lestri þriggja sunnlenskra héraðsfréttablaða situr í mér fréttin - eða slúðurfréttin - um hinn heppna eiganda Eggjavinnslunnar á Selfossi sem var með hið ágæta lén egg.is.

En eins og nú má sjá er hin stórglæsilega húsgagnaverslun á Smáratorgi í Kópavogi komin með lénið. 

Húsgagnaverslunin er sögð hafa boðið í lénið 150 þúsund krónur en framkvæmdastjóri matvinnslufyrirtækisins á Selfossi gerði gagntilboð upp á tíusinnum hærra verð og því var tekið. 

Húsgagnaverslunin Egg er eins og þeir sem þangað hafa komið verslun fyrir þá sem eiga nóg fé milli handanna og þá munaði víst ekkert um þennan aur fyrir lénið. Þetta er glæsileg verslun, ég hef skoðað hana, falleg húsgögn - en ég keypti ekki neitt.


Sem betur fer ekki manntjón

Á eins og tíu ára fresti berast fréttir af bílum eða fólki sem lenda í ánni við Selfoss. Við þetta þurfa íbúar bæjarins og aðrir vegfarendur um Árveginn að búa.  Fram að þessu hefur ekki þótt ástæða til að setja upp handrið eða steyptan vegkant.  Það er í raun ótrúlega auðvelt að missa bílinn útaf Árveginum og út í ána - ekki síst í hálku.  Og ef mikið er í ánni er voðinn vís. Aðgæslu er því þörf. Menn verða að bera virðingu fyrir hættum Ölfusár. Steyptur vegkantur meðfram Árveginum gæti bjargað mannslífum. Einnig mætti lækka hámarkshraða niður í 30 km./klst.
mbl.is Líðan manns sem lenti í Ölfusá góð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RAGARI, RAKKARI eða RAKARI?

Hann er grátbroslegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um ágætan kunningja minn og rakara sem ók bíl sínum heilan faðm á menningarnótt.

"D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007 í máli nr. S-2087/2006:

Ákæruvaldið

gegn

XX

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar 2007, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 27. nóvember sl., á hendur XX, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið með einkamerkinu RAKARI, að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2006, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,25‰) um bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík."

 Þá rifjaðist upp fyrir mér ágæt saga um ungan rakarason  í íslenskutíma í ónefndum gagnfræðaskóla úti á landi.  Nemendur áttu að skrifa um hvað þeir ætluðu sér að verða þegar þeir yrðu stórir.

Og rakarasonurinn skrifaði heilmikið um að að hann ætlaði sér að verða RAGARI og kennarinn tók rakarasoninn upp á töflu og bað hann að skrifa orðið rétt því kennarinn taldi ólíklegt að rakarasonurinn ætlaði sér að raga fé eða rófur, hvað þá að hann væri huglaus eða ragari.  Og rakarasonurinn lagfærði orðið og skrifaði RAKKARI. Kennarinn brást ókvæða við og var að sjálfsögðu ekki ánægður með þessa leiðréttingu. Engar kenndir væru í þá veru hjá strák að ætla sér að rakka niður nánungann. Að endingu skrifaði piltur orðið RAKARI og átti þá væntanlega við að hann ætlaði sér að feta í fótspor föður síns og verða rakari, þ.e. hársnyrtir, en ekki RAKARI  en hver annar.


Hjálmar út - Bjargni inn

Jæja, þá er prófkjöri framsóknarmanna í Suðurkjördæmi lokið.  Guðni, vinur minn til 20 ára, stóðst áhlaup Hjálmars sem lenti í þriðja sæti eftir Bjarna Harðarsyni ritstjóra. Og enn tapa Reyknesingar í prófkjöri þannig að nú er líklegt að einungis einn af tíu þingmönnum komi þaðan eftir kosningar í vor. Ég var satt að segja ekkert alsæll með þessi úrslit.  Mér hefur þótt Hjálmar standa sig vel á þingi og setti ég hann því í annað sætið sem ég geri ráð fyrir að hann hafi þegið hefði það sæti náðst. En nú eru strax, annarsstaðar en í kjördæminu, hafnar miklar bollaleggingar um það hver eigi að fylla skarð Hjálmars. Það hlýtur að skýrast á næsta kjördæmisþingi. Nýr kandidat eða á að færa þann næsta upp?Ég þekki Bjarna. Alþjóð þekkir hann helst úr silfrinu. Hefur kjaftvit á borð við Björn heitinn á Löngumýri. Sem pólitíkus er Bjarni óskrifað blað.

Nýtingahlutfall

Ég leit á silfuregils rétt áðan og las þar síðasta pistil.  Þar nefnir EH orð sem ég hef orðið ofnæmi fyrir.  Nefnilega nýtingahlutfall.  Ég hef mestalla mína lífstíð búið í hinum flata Flóa þar sem fjallasýnin er mikil og íbúðarhús að langlangstærstum hluta eins til tveggja hæða.  Nú heyrast fréttir af verktökum sem kaupa lóðir og gömul hús eins til tveggja hæða. Og til hvers? Jú til þess að reisa margra hæða blokkir.  þetta er einkum á Selfossi þar sem nýjustu blokkirnar eru fjögra hæða, tómar reyndar ennþá, en fréttir berast svo af verktakafyrirtæki einu eða fjárfestingafyrirtæki sem vill reisa sex hæða blokk fyrir gamalmenni utan í grónu íbúðarhverfi þannig að suðursólin hverfur og jafnframt verður blokk þessi skammt vestan Mjólkurbús Flóamanna einu stærsta og mest mengandi verksmiðju á Suðurlandi.

Og af Stokkseyri af öllum stöðum í Flóanum eru til furðufuglar sem vilja byggja þrjár sjö hæða íbúðarblokkir við Löngudæl, annálað náttúrusvæði ríkt af fuglum líka.  Sem betur fer hafa fleiri sömu skoðun og ég á þessum glópahugmyndum.

Ég hef búið í blokk, fannst það ekkert merkilegt og skil ekki þessa óstöðvandi áráttu íslenskra verktaka að koma þjóðinni í margra hæða blokkir.  Ég held að þjóðin sem búið hefur í torfbæjum og einshæða byggingum  í ellefu aldir ætti nú frekar að nýta landflæmið áfram og byggja ódýr og einföld hús á einni til tveimur hæðum.


Óveður

Fyrir 17 árum var vondur  vetur.  Hríðarbyljir og skafrenningur þess á milli vikum saman. Þá var ég háskólanemi sem vann þess á milli í samvinnufyrirtæki í eigu Sunnlenskra bænda, MBF sáluga. Eitt sinn sat ég tíma í fílunni hjá Páli Skúlasyni, sennilega í febrúar 1990.  Gott veður var þann dag og mér gekk vel að ferðast frá heimili mínu sem þá var í foreldrahúsum í Litlu-Sandvík. En svo um kvöldið hvessti heldur betur og ég þurfti að biðjast gistingar hjá vandamönnum. Stórbylur skall á og fréttir bárust af föstum bílum á Heiðinni. Svo átti ég að mæta í vinnuna í Mjólkurbúinu kl. 7 morguninn eftir þannig að ég tók daginn snemma.  Um morguninn var veður gengið niður og ég lagði af stað á mínum stórglæsilega dökkbláa Daihatzu Charade. Og það sem kom mér mest á óvart var að Vegagerðin var ekki farin að moka Fjallið.  Ég sé enn í dag eftir að hafa ekki tekið með mér ljósmyndavél. Heiðin var “sjúrealísk”. Bílar voru á þvers og kruss. Höfðu verið skildir eftir.  Við Litlu-kaffistofuna var bílaóreiða og greinilegt að þar hafði átt sér stað fjöldaflótti.  Og í brekkunni fyrir ofan var Volvo-station bíll á miðjum veginum með hazard-ljósin á.  Mannlaus.  En ég hélt minn veg áfram og gat ekið á miðjum veginum því engin var umferðin á móti. Smá hryðjur öðru hvoru og skafið hafði inn á veginn hér og þar en ekkert mál var fyrir mig að smeygja fram hjá því. Ég mætti fyrsta bílnum í Kömbunum.  Og ók á Selfoss, var mættur í Mjólkurbúinu skömmu eftir kl. 7.  Yfirverkstjórinn rak upp stór augu.  Faðir minn hafði hringt og tjáð að ég væri veðurtepptur í Reykjavík. Og eftir að ég hafði gefið Mumma verkstjóra ferðaskýrslu hringdi hann í Reykdal og skipaði honum að senda af stað vöruflutningabílana tvo til Reykjavíkur því enn bárust útvarpsfréttir af ófærð á Hellisheiði. Þannig að þessi morgunleiðangur minn frá Reykjavík til Selfoss kom í veg fyrir að Reykvíkingar syltu þann daginn.

Tímafrek skráning á menningararfi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifar í dagbók sinni á www.bjorn.is um afhendingu ljósmynda úr einkasafni sínu til Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Hann segir

"Á sínum tíma ákvað ég að láta Ljósmyndasafni Reykjavíkur í té mikið safn ljósmynda í minni vörslu. Myndirnar voru óskráðar en á þeim tíma, sem ég afhenti þær, var enn nokkur áhugi á að nota sumar þeirra og taldi ég einfaldast að geta bent á safn sem vörsluaðila. Þegar myndirnar höfðu verið í kössum í mörg ár og ekkert var gert í því skyni að skrá þær eða búa um þær á nokkurn hátt auk þess mér fannst, að stjórnendum safnsins þætti nokkur ami af þeim nema með fráhrindandi skilyrðum, ákvað ég einfaldlega að taka kassana aftur í mína vörslu."

Um þetta er tvennt að segja. 

1.  Skráning er ekki einföld aðgerð.  Mikill tími fer í þá vandasömu aðgerð sem fellst í skráningu menningararfsins hvort sem um er að ræða þrívíða muni, ljósmyndir, fornleifar, skjöl eða heimildir.  Og mikill tími þýðir að mikið fjármagn þarf til skráningar, starfsfólk á launum og aðstöðu við skráningar auk fullnægjandi aðstöðu til varðveislu.  Þetta þekki ég vel eftir 15 ár í starfi á safni.

2.  Undarlegt að ljósmyndasafn BB skuli ekki hafa verið skráð af LR með tilliti til stöðu hans í þjóðfélaginu og stöðu föður hans, Bjarna Benediktssonar,  sem skilgreina má sem einn af helstu stjórnmálaforingjum Íslands á 20. öld.  Greinilegt er að Ljósmyndasafn Reykjavíkur býr við fjárskort eins og aðrar menningarstofnanir Reykjavíkurborgar og hefur ekki við að skrá þær ljósmyndir sem því er falið að varðveita, forverja, skrá og, eftir atvikum, miðla. En ef til vill er málið flóknara því í þessa gjöf spilar örugglega höfundaréttur atvinnuljósmyndara sem væntanlega eru höfundar einhvers hluta af myndum þeim sem innihalda ljósmyndasafn Björns Bjarnasonar ráðherra. 


Hinir einu sönnu sigurvegarar: Siggi, Svenni og ég!

Nú er spurningakeppni framhaldsskólanna hafinn enn enn einu sinni enn.  Ég hef reyndar gaman af þessari keppni og er í sí og æ að gjamma fram í Sigmar heima hjá mér þegar hann spyr spurninga Davíðs Þórs Jónssonar dómara.

Þegar ég var yngri lenti ég fyrir einhvern óvitaskap í liði skóla míns. Það var vorið 1986.  Þá vissi ég varla hvað þessi keppni var.  Þá  var hún nefnilega haldin í fyrsta skipti og enginn undirbúningur hjá okkur hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hið sama gilti víst um hin 15 liðin sem kepptu þannig að í raun komu allir jafn vel undirbúnir til keppninnar. Það gildir víst ekki í dag.  Liðin eru jafnvel byrjuð að æfa ári fyrir keppnina og misjafn metnaður milli skóla því vel sýnilegur. Þessi keppni var nefnilega sett á stofn í einhverju bríaríi tveggja menntskælinga annars í MR og hins í MS sem voru að kýta um það hvor skólanna væri betri eins og spurningakeppni væri einhver mælikvarði á það.

En við unnum þannig að Fjölbrautaskóli Suðurlands er þá besti framhaldsskóli landsins forever og hinir einu sönnu sigurvegarar eru víst þeir Sveinn Helgason og Sigurður Eyþórsson – sem hefðu vel getað unnið keppnina einir án þriðja liðsmannsins.   

Urriðafoss

Í sjálfu sér er Urriðafoss ekki merkilegur foss. Þetta eru einskonar flúðir, og svosem ekkert augnayndi.  Hann er þó vatnsmikill enda í vatnsmestu á landsins, Þjórsá. 

Nú á að virkja þarna og fyrir hverja?  Fyrir erlend fyrirtæki sem munu væntanlega staðsetja sína stóriðju við Faxaflóa og annarsstaðar en á Suðurlandi.  Geta þessi krummaskuð við Faxaflóann ekki bara virkjað sína bæjarlæki sjálf?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bloggsíða Lýðs

Hver er Lýður?

Lýður Pálsson
Lýður Pálsson

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka

lydurp@hotmail.com (ég sjálfur)

lydurp@byggdasafn.is (safnstjórinn)

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband