Tímafrek skráning á menningararfi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifar í dagbók sinni á www.bjorn.is um afhendingu ljósmynda úr einkasafni sínu til Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Hann segir

"Á sínum tíma ákvað ég að láta Ljósmyndasafni Reykjavíkur í té mikið safn ljósmynda í minni vörslu. Myndirnar voru óskráðar en á þeim tíma, sem ég afhenti þær, var enn nokkur áhugi á að nota sumar þeirra og taldi ég einfaldast að geta bent á safn sem vörsluaðila. Þegar myndirnar höfðu verið í kössum í mörg ár og ekkert var gert í því skyni að skrá þær eða búa um þær á nokkurn hátt auk þess mér fannst, að stjórnendum safnsins þætti nokkur ami af þeim nema með fráhrindandi skilyrðum, ákvað ég einfaldlega að taka kassana aftur í mína vörslu."

Um þetta er tvennt að segja. 

1.  Skráning er ekki einföld aðgerð.  Mikill tími fer í þá vandasömu aðgerð sem fellst í skráningu menningararfsins hvort sem um er að ræða þrívíða muni, ljósmyndir, fornleifar, skjöl eða heimildir.  Og mikill tími þýðir að mikið fjármagn þarf til skráningar, starfsfólk á launum og aðstöðu við skráningar auk fullnægjandi aðstöðu til varðveislu.  Þetta þekki ég vel eftir 15 ár í starfi á safni.

2.  Undarlegt að ljósmyndasafn BB skuli ekki hafa verið skráð af LR með tilliti til stöðu hans í þjóðfélaginu og stöðu föður hans, Bjarna Benediktssonar,  sem skilgreina má sem einn af helstu stjórnmálaforingjum Íslands á 20. öld.  Greinilegt er að Ljósmyndasafn Reykjavíkur býr við fjárskort eins og aðrar menningarstofnanir Reykjavíkurborgar og hefur ekki við að skrá þær ljósmyndir sem því er falið að varðveita, forverja, skrá og, eftir atvikum, miðla. En ef til vill er málið flóknara því í þessa gjöf spilar örugglega höfundaréttur atvinnuljósmyndara sem væntanlega eru höfundar einhvers hluta af myndum þeim sem innihalda ljósmyndasafn Björns Bjarnasonar ráðherra. 


Hinir einu sönnu sigurvegarar: Siggi, Svenni og ég!

Nú er spurningakeppni framhaldsskólanna hafinn enn enn einu sinni enn.  Ég hef reyndar gaman af þessari keppni og er í sí og æ að gjamma fram í Sigmar heima hjá mér þegar hann spyr spurninga Davíðs Þórs Jónssonar dómara.

Þegar ég var yngri lenti ég fyrir einhvern óvitaskap í liði skóla míns. Það var vorið 1986.  Þá vissi ég varla hvað þessi keppni var.  Þá  var hún nefnilega haldin í fyrsta skipti og enginn undirbúningur hjá okkur hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hið sama gilti víst um hin 15 liðin sem kepptu þannig að í raun komu allir jafn vel undirbúnir til keppninnar. Það gildir víst ekki í dag.  Liðin eru jafnvel byrjuð að æfa ári fyrir keppnina og misjafn metnaður milli skóla því vel sýnilegur. Þessi keppni var nefnilega sett á stofn í einhverju bríaríi tveggja menntskælinga annars í MR og hins í MS sem voru að kýta um það hvor skólanna væri betri eins og spurningakeppni væri einhver mælikvarði á það.

En við unnum þannig að Fjölbrautaskóli Suðurlands er þá besti framhaldsskóli landsins forever og hinir einu sönnu sigurvegarar eru víst þeir Sveinn Helgason og Sigurður Eyþórsson – sem hefðu vel getað unnið keppnina einir án þriðja liðsmannsins.   

Urriðafoss

Í sjálfu sér er Urriðafoss ekki merkilegur foss. Þetta eru einskonar flúðir, og svosem ekkert augnayndi.  Hann er þó vatnsmikill enda í vatnsmestu á landsins, Þjórsá. 

Nú á að virkja þarna og fyrir hverja?  Fyrir erlend fyrirtæki sem munu væntanlega staðsetja sína stóriðju við Faxaflóa og annarsstaðar en á Suðurlandi.  Geta þessi krummaskuð við Faxaflóann ekki bara virkjað sína bæjarlæki sjálf?


Sönnun á eignarétti safngripa

 

Mál Ingimundar Kjarvals og fjölskyldu gegn Reykjavíkurborg er athyglisvert.  Þar vefengir fjölskyldan eignarétt borgarinnar á fjölda málverka eftir meistara Kjarval og ber fyrir sig að hann hafi ekki verið sjálfráða er hann átti samskipti við Geir heitinn Hallgrímsson borgarstjóra. Nú eru helstu málsaðilar fallnir frá og einungis hægt að dæma á líkum í þessu máli.  Og dómarar töldu sannað að Jóhannes Kjarval hafi gefið borginni málverkin og byggir á dagbókum sonar embættismanns og því að ekki mátti styðjast við læknaskýrslur. 

Mál þetta vekur mig til umhugsunar.  Svo vill til að einungis í undantekningartilvikum fylgja gjafabréf eða afsöl gjöfum til Byggðasafns Árnesinga, hvort sem um er að ræða stórar eða smáar gjafir.  Reyndar er að jafnaði útbúið gjafabréf ef um mjög verðmætar gjafir er að ræða eða t.d. bifreiðar.  Yfirleitt telja málsaðilar slíkt óþarfi enda hef ég reynt að passa upp á að enginn vafi leiki á þeim gjörningi hverju sinni að einstaklingur gefur opinberri stofnun, þ.e. safni, grip sem hann er sannarlega eigandi að og afsalar sér þannig eignarétti á gripnum um leið og safnið tekur við honum. Starfsreglur þurfa því að vera skýrar og allt skriflegt og vottað.  Það hefur virðist víst ekki hafa verið í tilviki Kjarvals.

Í þetta mál spilar einnig að hægt er að túlka orðið "varðveisla" á tvenna vegur, sem eign og umráð annarsvegar eða sem umráð einungis hinsvegar.  Á Reykjavíkurborg Kjarvals-teikningarnar eða er það einungis vörslu- og sýningaraðili þeirra?


Þjóðminjar í hættu?

 Úr Sandvíkurhreppi er það annars að frétta að í dag hófst niðurrif Haga. Hagi er sögufrægt hús sem stendur rétt neðan við iðnaðarhverfið á Selfossi rétt ofan flugvallarins. Það var reist 1911,  þegar Eyrarbakkavegur var tiltölulega nýlagður, áður en Selfoss varð að verslunarstað og Eyrarbakki enn höfuðstaður Suðurlands, sem veitingastaður við þjóðveginn.  Síðar eða um 1915 eignaðist Ungmennafélag Sandvíkurhrepps helminginn í húsinu og nýtti sem félagsheimili í nokkur ár. Eitt af helstu málum félagsmanna á þessari tíð var að koma upp flaggstöng og tilheyrandi fánagarði, skeifulaga hlöðnum á allar hliðar. Þetta var á þeim tímum þegar mikil sjálfstæðisvakning var meðal landsmanna og í fundargerðum ungmennafélagsins var þetta hjartansmál ungs fólks í hreppnum. Það hefur verið þarna sem fyrst var flaggað íslenska fánanum fyrir austan Fjall. Og enn stendur skeifulaga garðurinn eftir sem þögul heimild um merkilegt tímabil í sögu þjóðarinnar.  Ég er alveg viss um að hinar stórvirku jarðýtur Ræktunarsambands Flóa og Skeiða verða ekki nema í fimm mínútur að ýta yfir þessar þjóðminjar.Ég hef verið fylgjandi því að Hagi og garðurinn fái að standa þarna áfram.  En hinir ríku eigendur Haga, Ræktó, hafa engan áhuga á að varðveita söguna enda ekki í þeirra verkahring. Þeir hafa góðlátlega brosað til mín þegar þetta hefur borið á góma.  Ég hef vakið athygli bæjarstjórnar Árborgar á sögulegu mikilvægi hússins og garðsins. Þar vilja menn ekki standa á móti framförum og uppbyggingu. Ég hefi rætt þessi mál við framkvæmdastjóra Húsafriðunarnefndar og forstöðumann Fornleifaverndar.  Þar hef ég tjáð hið ótrúlega áhugaleysi meðal íbúa sveitarfélagsins á að varðveita söguna. Virtir fornsmiðir á Eyrarbakka, Gísli og Guðmundur, hafa meiraðsegja talið óforsvaranlegt að flytja húsið og gera upp annarsstaðar eins og víða tíðkast.

Nýtt blogg

Hér hefst færsla á tölvuspjalli Lýðs Pálssonar sem verður hér á blog.is framvegis.

« Fyrri síða

Um bloggið

Bloggsíða Lýðs

Hver er Lýður?

Lýður Pálsson
Lýður Pálsson

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka

lydurp@hotmail.com (ég sjálfur)

lydurp@byggdasafn.is (safnstjórinn)

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband