1.3.2007 | 18:58
Loka Selfyssingar þjónustuverum Eyrbekkinga og Stokkseyringa?
Haustið 1994 fór ég að venja komur mínar á Eyrarbakka. Þá var í bígerð að opna nýja grunnsýningu fyrir Byggðasafn Árnesinga í hinu aldna Kaupmannshúsi og það flókna verk var helsta verkefnið mitt þann veturinn.
Þá kynntist ég Eyrarbakka - og reyndar líka Stokkseyri þar sem Þuríðarbúð var minn vettvangur. Og í þessum þorpum var heilmikla vinnu að fá um þær mundir, amk tvær fiskvinnslur á Eyrarbakka og yfir Stokkseyri gnæfði hið stóra frystihús sem veitti atvinnu. Í báðum þorpunum sjoppur og KÁ verslanir. Á Eyrarbakka voru menn nýlega búnir að missa elsta kaupmann í heimi á tíræðisaldri en sonardóttir hans rak verslunina áfram. Í báðum þorpunum voru Landsbankaútibú, heilsugæsla, elliheimili, pósthús, bókasöfn og skólar. Á Stokkseyri var strigapokagerð. Á Eyrarbakka álpönnuverksmiðja. Á Eyrarbakka fangelsið sem þá var verið að byggja við. Þar skorti aldrei víst hráefnið og margir hafa þar vinnu í dag. Árið 1995 voru fimm ár liðin frá því brúin góða yfir Ölfusárósa var opnuð og hafnirnar lagðar niður í kjölfarið. Metnaðarfullir og ákafir oddvitar og sveitastjórar ríktu á hvor sinni hreppskrifstofu. Heilbrigður hrepparígur var milli þorpana en báðir hreppsjóðirnir voru að sjálfsögðu tómir. Túrismi var lítill árið 1995 - öðruvísi en nú.
Nú eru liðin 12 ár og margt hefur breyst. Þorpin tvö orðin að svefnbæjum í stóru sveitarfélagi og vegalengdin á Selfoss styttist í huga manna. Meirihluti vinnuafls keyrir út fyrir þorpið sitt til vinnu á hverjum morgni. Og það er búið að loka KÁ-búðunum, Landsbankaútibúunum, pósthúsunum, heilsugæslunni að mestu, frystihúsunum, búið að selja þann litla kvóta sem eftir var, og í þorpunum báðum er búið að koma á fót stórum ferðamannastöðvum með veitingahúsin Fjöruborðið og Rauða-Húsið í fararbroddi. Hús byggt fyrir einokunarkaupmenn var gert að safni. Aðkomumenn komu lífi í stóra frystihúsið á Stokkseyri. Frysti- og iðnaðarhús eru í dag mörg hver notuð sem húsbíla- og tjaldvagnageymslur. Alpan fór til Rúmeníu.
þetta er kannski bölsýnislegt tal. En furðulegt nokk þá ríkir ekki kreppa í þessum þorpum. Íbúðarverð er hátt. Fólk sækir í að búa á Eyrarbakka og Stokkseyri. Menningin blómstrar. Ferðamenn af öllum sortum sækja veitingastaðina og menningartengdu ferðaþjónustuna, horfa á gömlu húsin á Eyrarbakka, hlusta á brimið og fuglakvakið. Íbúarnir hér láta sér það lynda að þjónustuverum fyrirtækjanna sem fyrrum voru ríkisfyrirtæki sé því sem næst lokað. Og hversvegna líður fólki hérna vel? Til að byrja með þá held ég að skýringuna sé að leita til þess að þorpin tvö eru fjaskaplega friðsæl. Í öðru lagi þá eru vegalengdirnar ekki farartálmar flestum sem bil eiga og bílpróf hafa. Það að aka frá Eyrarbakka á Selfoss er fyrirhafnarminna en fyrir Breiðholtsbúa að keyra í hverfi 101. Þessi þorp eru líka falleg þó ég segi sjálfur frá. Að lokum held ég að þorpin bæði hafi sterka staðarímynd sem gerir þau eftirsóknarverða búsetustaði. Staðarímyndin fellst ekki síst í gróinni sögu sem bæði þorpin eru rík af.
Mér finnst eins og einn aðili bölsótist út í góðærið í þorpunum á Eyrarbakka (og hér á ég við Eyrarbakka í gömlu merkingunni frá Þjórsárósum að Ölfusárósum). Hreppnefndin hefur verið með múður út í þorpin. Réttmæt krafa hefur verið um að aðstaða til skólahalds sé með sambærilegu sniði og á Selfossi. Það hefur ekki gengið þrautarlaust og í stað þess að byggja upp stóran skóla í því þorpi sem lengst skólahald hefur verið í Íslandssögunni er tekin sú stefna sem allir geta fallist á að byggja upp skólahald í báðum þorpunum. Gott og vel, - en það er allt og sumt. Í haust barst sú frétt að loka ætti bókasafninu á Eyrarbakka. Það var í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Því var svo frestað. En í Dagskránni í dag birtist svo eftirfarandi frétt:
"Árborg selur hús fyrir 60 m.kr. Árborg hefur sett nokkur hús á söluskrá og ætlar með því að ná inn 60 millj.kr. Um er að ræða húsnæðið við Skólavelli 3 á Selfossi og gömlu hreppskrifstofunar á Stokkseyri við Hafnargötu 10 og á Eyrarbakka við Túngötu 40. Þá á að selja húsið á gæsluvellinum við Dælengi á Selfossi."
Það á semsagt að setja á sölu þjónustuskrifstofur Sveitarfélagsins Árborgar á Eyrarbakka og Stokkseyri til að afla sveitarfélaginu fjár og væntanlega líka til að hagræða. Þannig að enn dregur úr þjónustustigi sveitarfélagsins í þorpunum tveimur, hús sem einnig hýsir einnarvikuafgreiðslu Landsbankans, atvinnuleysiskráningu verkalýðsfélaga og bókasafn annars þorpsins. Hvernig á að þjóna þeim sem ekki hafa bíl? Og það kostar að aka 26 kílómetra. Ekki veit ég hvað hreppsnefndin ætlar sér að gera meira en að selja. Á að loka þjónustuskrifstofunum eða stendur til að færa þær til? Á að selja, leigja og halda úti þessari þjónustu áfram? Hver veit hvað verið er að hugsa í Ráðhúsi Árborgar og ætli nokkur viti það hér í þorpunum? Undarlegt sambandsleysi. Ég biðst þó velvirðingar ef velkynntar tilkynningar sveitarfélagsins hafi etv. farið fram hjá mér.
Um bloggið
Bloggsíða Lýðs
Tenglar
Les reglulega
- Davíð Oddsson bloggaði Nýjar fréttir af efnahagsmálunum
- Erlingur Brynjólfsson
- Víiisiirrrr
- Ofurbloggarar
- Sandvíkurhreppur og nágrannar
- Höfuðborg Suðurlands
- Aldís bæjarstjóri
- Guðmundur í Hraungerði
- Ingi Heiðmar
- Sigurður Sveinsson
- Jónas ritstjóri Penni með áratuga reynslu af þjóðfélagsrýni
- Dagblaðið Nei Óháð blað á netinu
- Margrét Hallmundsdóttir FORNLEIFAFRÆÐINGUR
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 59198
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.