Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ættfræði Moggans

Það kom mér reglulega á óvart að lesa í Morgunblaðinu í morgun að Bjarni Harðarson bóksali og fyrverandi alþingismaður og Eygló Harðardóttir framkvæmdastjóri, ráðgjafi og nýorðinn alþingismaður væru systkin. Eða var ég svona svakalega syfjaður þegar ég las blaðið? En er þá líka nýorðinn alþingismaður Helga Sigrún Harðardóttir systir þeirra?  Morgunblaðið verður að svara þessu. Hann lýgur aldrei.
mbl.is ESB „ýtti við“ Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór Gestsson kvaddur

Í dag liggur leið mín í Hrunakirkju til að kveðja gamlan æskufélaga Halldór Gestsson sem var vetrarmaður hjá pabba og afa þegar ég var lítill. Þessa grein skrifaði ég í Moggann og mun væntanlega birtast næstu daga.

Þegar ég var ungur héldu faðir minn Páll Lýðsson og afi Lýður Guðmundsson, sem ráku félagsbú í Litlu-Sandvík, vetrarmann til að þeir gætu betur sinnt hreppsstjórn, félagsmálum, kennslu og fræðistörfum.  Einn þeirra var Halldór Gestsson frá Syðra-Seli í Hreppum sem kvaddur er í dag. Halldór starfaði í Litlu-Sandvík öðru hvoru á 7. áratugnum og allt til 1971. Ég man eftir honum fjögurra eða fimm ára gamall og ég minnist enn ilmsins úr pípu Halldórs sem barst úr vetrarmannsherberginu sem löngu síðar varð bóka- og vinnuherbergi föður míns. 

Á þessum tíma hafði Halldór krafta í kögglum og segir sagan að hann hafi haft betur í sjómanni við þá Geira í Stóru-Sandvík og Dodda í Stekkum.  Halldór Gestsson og LýðurPEkki veit ég hvort það var satt en sterkur var Halldór því lítið mál var fyrir hann að jafnhatta mig hátt á loft og er til ágæt ljósmynd af því.  

Halldór bjó á Flúðum eftir að hann hætti að starfa sem farandverkamaður í þjónustu bænda. Ég hitti hann öðru hvoru að störfum í þágu Hrunamannahrepps. Meiri samskipti hafði ég við Halldór vegna sameiginlegs verkefnis hans og föður míns sem var ábúendatal Árnessýslu, langt og viðamikið skjal sem segir frá ábúendum á öllum jörðum Árnessýslu eins lengi og heimildir greina. Tölvubréf með nýjum “uppfærslum” og leiðréttingum bárust með reglulegu millibili til mín sem ég sá svo um að prenta út og koma upp í Litlu-Sandvík.  

Halldór Gestsson var nefnilega ötull fræðimaður og safnaði saman margvíslegum upplýsingum um samfélag sitt.  Hann var, ólíkt föður mínum, mikill tölvumaður og er ekki að efa að í tölvu Halldórs Gestssonar og á heimili hans má finna margvíslegar uppskriftir ættfræðibóka og handrita. Af hógværð sinni flíkaði hann ekki gögnum sínum né fræðiskrifum en  í fórum Halldórs finna merkar upplýsingar um sögu sunnlenskra sveita. Samskipti Halldórs og Páls föður míns  voru náin og farsæl eins og ábúendatalið ber með sér.  Það er leitt að þeir skuli báðir vera farnir úr þessari jarðvist – svona allt of snöggt á þessum vormánuðum 2008.     

Ég á einungis góðar minningar um Halldór Gestsson. Blessuð sé hans minning. Ég votta systkinunum samúð.

Lýður Pálsson

 


Hún á afmæli í dag!

Elínborg og hundurÞessi mynd var tekin í túninu á Þorfinnsstöðum í Vesturhópi á 5. áratug síðustu aldar og sýnir heimasætuna yngstu á bænum með fjárhundinum. 

Heimasætan heitir Elínborg Guðmundsdóttir og er móðir mín.  Hún fæddist á þessum bæ fyrir norðan þann 28. maí 1937 og er því óhjákvæmilega, hvort sem henni líkar það betur eða verr, sjötug í dag. 

Mikil umskipti urðu í hennar lífi er hún kynntist við Menntaskólann að Laugarvatni strák úr Flóanum nefnilega honum föður mínum.  Þau hafa í yfir  fjörutíu ár verið bændur í Litlu-Sandvík.

 

Það eru ekki margir sem vita það að mamma er ágætur ljósmyndari.  Lesendum þessa bloggs ætla ég að leyfa að njóta þessarar myndar sem tekin var við heyhirðingu á Kotferjutúni sumarið 1981.

Kotferjuheyskapur81-2Mynd þessi sýnir hinn algenga baggaheyskap sem tíðkaðist í íslenskum sveitum frá ca. 1975 til 1990 er rúlluheyskapur varð hið algengasta heyskaparform hérlendis. Ljósmyndin sýnir svo ekki sé um villst að Páll Lýðsson er spretthlaupari þegar svo ber undir.  Hér hleypur hann ásamt tveimur kaupamönnum Bjarka Sverrissyni (t.vinstri), núverandi starfsmanns Reiknistofu bankanna, og Kolbeini Gunnarssyni, sem nam rafmagnsverkfræði. Og hirðingin gekk fljótt og vel.  Undir stýri Nýja-Massa er Sigurjón Örn Ólason, sem nú er flugvélavirki. Á vagninum glittir í systur mína Aldísi Pálsdóttur.  


Ingólfur Guðnason

IngóIngólfur var maðurinn hennar Önnu móðursystur. Þegar ég var lítill bjuggu Anna og Ingólfur á Hvammstanga. Það var gaman að fara til þeirra. Ingólfur átti sparisjóðinn – og jæja – hann var sparisjóðsstjóri.

Anna og Ingólfur bjuggu yfir sparisjóðnum í svaka stórri íbúð.

Ingólfur var skemmtilegur kall. Hann var líka pípukall. Hann var ræðinn og áhugasamur um nánungann.  Ingólfur var spaugari. Mér er minnistætt þegar ég var með foreldrum mínum á Hvammstanga í ágúst 1980 og við fórum í bíltúr út í Vesturhóp. Obba hin móðursystirin líka. Ingólfur var heima í sparisjóðnum og fékk þannig smá hvíld frá gestunum að sunnan. - Og þegar við komum á Tangann aftur úr bíltúrnum sagði Ingólfur okkur þau stórmerku tíðindi að Hekla væri farin að gjósa. “O, trúið ekki öllu sem hann segir!”sagði þá Obba hlæjandi.  Kveikt var á útvarpinu og það fyrsta sem í útvarpinu heyrðist var að Hekla væri farin að gjósa og ferðamannastraumurinn lægi austur að Heklu. “Hvað er þetta! Er sjálft útvarpið gengið í samsæri með mér um að ljúga að þér Obba?”spurði þá Ingólfur.  – Svona var spaugarinn Ingólfur.

Ingólfur var hreppstjóri. Hann var líka í hreppsnefndinni. Hann var vinsæll. Ingólfur skammaði um tíð þingmenn kjördæmisins fyrir að vinna ekki vinnuna sína. Ingólfur var þessvegna kosinn á þing. Hann féll svo af þingi.

Anna og Ingólfur fluttu til Reykjavíkur árið 1995.  Önnu og Ingólf var gaman að heimsækja í Laugarteiginn. Hjá Önnu og Ingólfi var gaman að verða veðurtepptur. 

En við lifum víst ekki endalaust. Ingólfur lést af völdum krabbameins þann 14. mars 81 árs að aldri. Ég, eins og margir aðrir munu sakna hans. Jarðarförin var í gær 22. mars. Mjög virðuleg og falleg athöfn þar sem Álftagerðisbræður voru í aðalhlutverki. Erfidrykkja í Súlnasal Hótel Sögu. 

Blessuð sé minning Ingólfs Guðnasonar. Mér finnst eiginlega ótrúlegt að hann skuli vera farinn. Hugur minn er hjá Önnu og þeirra niðjum.    


Doddi í Stekkum

Ég var að koma úr jarðaför sveitunga míns Þorvarðar Guðmundssonar í Stekkum sem lést sl. helgi af völdum krabbameins 63 ára að aldri. Þorvarður Guðmundsson Ef ég ætti að lýsa honum í nokkrum orðum þá væru það orð eins og hæglátur, húmoristi, traustur og hjálpsamur.  Hans verður sárt saknað í sveitinni minni og ekki síst meðal fjölskyldunnar  í Stekkum.

Blessuð sé minning Dodda í Stekkum.

Um Dodda birtust greinar í Mogganum. Ein þeirra eftir föður minn Pál Lýðsson.

"Meira en gott nágrenni bar vináttu okkar Þorvarðar Guðmundssonar uppi. Feður okkar, Guðmundur Hannesson í Stekkum og Lýður í Sandvík, voru fóstbræður. Að föður sínum látnum kom Guðmundur barnungur í fóstur frá Stóru-Sandvík til föðurforeldra minna, Guðmundar hreppstjóra Þorvarðarsonar og Sigríðar Lýðsdóttur. Þar ólst hann upp fram á fullorðinsár er hann hóf búskap í Stekkum, kvæntur ungri konu sinni, Önnu Valdimarsdóttur.

Þorvarður fékk að reyna það sama og faðir hans, föðurmissi á unga aldri. Til þess var tekið hversu samhent Stekkafjölskyldan var í þessum sára missi. Allir unnu eftir bestu getu til að halda heimilinu saman. Vissi ég að Þorvarður sást fimm ára gamall með skóflu í hendi úti í fjósi og vann þar eftir getu sinni. Fljótt hóf Anna búskap með öðrum öndvegismanni, Lárusi Gíslasyni frá Björk, og blómstraði áfram búskapur þessarar víkingskonu. Þorvarður hóf nám í bifvélavirkjum sem hann lauk með sóma um tvítugt. Hann náði það miklu áliti hjá meistara sínum í iðninni, Þórmundi Guðmundssyni, verkstæðisformanni KÁ, sem kvað Þorvarð snilling að sjá út bilanir. Þá réð þar hyggjuvitið eitt; tölvutæknin í bilanaleit átti enn langt í land.

Þorvarður var orðinn vel reyndur sem bifvélavirki er Lárus stjúpfaðir hans féll skyndilega frá 1963. Brátt réðst það svo að hann gekk inn í félagsbú í Stekkum með móður sinni og Guðmundi bróður sínum, Lárussyni. Var það farsæl lausn. Þeir Guðmundur voru báðir vel gerðir fyrir búskap, auk þess færir vélamenn, eins og bændur þurfa jöfnum höndum að vera. Jörðina tókst þeim að stækka um helming með kaupum á grannjörðinni, Eystra-Stokkseyrarseli og allt þetta varð undirstaða þess að stórbúskapur varð í Stekkum í áranna rás. Nýtt fjós var byggt upp úr 1970, það stækkað nú fyrir skemmstu og vélbúnaður þannig settur niður að þeir bræður réðu vel við þá stækkun sem fólst í kúabúi með um 300 þúsund lítra ársframleiðslu.

Þorvarður í Stekkum var ræktunarmaður, hann kunni vel skil á því hvaða vélar hentuðu til að brjóta landið, valdi ræktunarspildur með kostgæfni, ræsti þær vel fram svo þessi erjan bar ríkan ávöxt. Út á við bar ekki mikið á honum í félagsstörfum, hann sóttist ekki eftir mannaforráðum. En innan sveitar var hann ákaflega félagslyndur, skoraðist þar hvergi undan störfum. Var gjaldkeri Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps um árabil og tók virkan þátt í starfsemi Búnaðarfélagsins. Var hann vélavörður þess hin síðustu ár.

Þá var hann hjálparhella sveitunga sinna hvenær sem bilun bar að. Vani var að kalla á Dodda í Stekkum áður en meiri aðilar yrðu ákallaðir. Einföldustu hluti leysti hann skjótt. Mér er í minni er ég átti eitt sinn Fiat-fólksbíl, vondan og vanstilltan. Í því ástandi var hann er Dodda bar að garði. Ég bað hann að líta ofan í vélina. "Sæktu lykil númer sautján," sagði hann strax og skrúfaði svo einn bolta til. Bíllinn gerbreyttist við þessi umsvif.

Dodda var gefið létt geð og það vissu kunnugir að hann átti frábæran húmor, góðviljaðan og án þess að særa neinn. Vandamálum gat hann vikið frá með einni hnyttinni athugasemd. Stórfjölskylda hans var honum allt og einnig nágrennið sem ekki vissi af vinsælli manni. Nú á hann góða heimvon til foreldra sinna og fyrir honum mun upplokið verða til æðra heims með öðrum lyklum en honum var tamast að beita.

Ég votta systkinum hans og öðrum aðstandendum dýpstu samúð mína.

Páll Lýðsson. "


Um bloggið

Bloggsíða Lýðs

Hver er Lýður?

Lýður Pálsson
Lýður Pálsson

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka

lydurp@hotmail.com (ég sjálfur)

lydurp@byggdasafn.is (safnstjórinn)

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 58877

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband