Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að toppa á réttum tíma

Það vesta sem getur komið fyrir stjórnmálahreyfingu er að fá góða útkomu í skoðanakönnun löngu áður en gengið er til kosninga. Góð útkoma nú er að sjálfsögðu dómur almennings um tíð meirihlutaskipti.  Að sjálfsögðu er glundroði  borgarstjórnar-elítunnar aðhlátursefni og í raun hefur verið ótrúlegt að fylgjast með framvindu mála í Reykjavík frá þeirri stundu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri R-listans  gaf kost á sér á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík til Alþingis í janúar 2003.  Síðan þá hafa sex borgarstjórar sest í stólinn og sá sjöundi á fimmtudaginn kemur.  Að meðaltali situr hver borgarstjóri í eitt ár. Merkilegt nokk!


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin áfram?

Ýmsir virðast sjá ofsjónum yfir því að framsóknarmenn skuli líklega sitja áfram í ríkisstjórn eftir óverðskuldað afhroð í kosningum síðasta laugardag.

En er ekki svo að við alþingiskosningar bjóða fram flokkar með það að markmiði að komast til áhrifa og valda? Vilja ekki allir fimm flokkarnir komast í ríkisstjórn? Á flokkur sem tapar fylgi að fara í stjórnarandstöðu?  Átti Sjálfstæðisflokkurinn að fara í stjórnarandstöðu fyrir fjórum árum þegar þeir misstu 3-4 þingmenn? Hverskonar bull er þetta! Ég kaus Framsóknarflokkinn og ég krefst þess að hann fari í ríkisstjórn núna, og ef ekki með íhaldinu þá með Samfylkingu og VG!

Ýmsir hafa síðustu daga látið í ljós þá skoðun að Geir HHaarde hafi alla þræði í hendi sér.  Það er ekki rétt. Jón Sigurðsson hefur þrátt fyrir tapið ýmsa þræði í hendinni.  Það vita Steingrímur Joð, Ögmundur og Ingibjörg Sólrún og eru að sjálfsögðu óánægð með áhuga B&D til að vinna saman áfram þrátt fyrir tæpan meirihluta. Árásir þeirra á framsókn og niðurlægjandi tilboð um að framsókn verji vinstristjórn vantrausti því skiljanleg.

Eftir tuttugu ár er aftur komin krítísk staða eftir kosningar. Vegna klofnings í Sjálfstæðisflokknum misstu B og D meirihlutann 1987 í miklu drama. Þá var Alþýðuflokknum boðið í stjórnina undir forsæti Þorsteins Pálssonar. Þar ríkti ekki trúnaður milli flokka og endirinn sá að til varð ágæt vinstristjórn framsóknar og A-flokkanna. Þá tók Davíð við og síðustu 16 árin hafa í raun verið tíðindalaus - en nú er Davíð fyrir bí - eins og Halldór. Nú reynir fyrst á Jón og Geir.


mbl.is Geir: Sérstök ákvörðun ef stjórnarsamstarfið heldur ekki áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðsfundir

augl copyUm þessar mundir eru fjölmargir framboðsfundir boðaðir.  Í gegnum bréfalúgu á heimili mínu barst auglýsing um eitt fundarboðið og ætla ég að leyfa lesendum míns bloggs að njóta hennar með mér. 

Um daginn var ég eitthvað að skammast út í að Árni Johnsen væri ekki sjáanlegur á dásamlegri auglýsingu þeirra sjálfstæðismanna um Mjallhvítu og sveitarstjórnadvergana sjö.  Hér er Árni Johnsen heldur betur í aðalhlutverki. Unnur og Kjartan komast varla fyrir.


Sjálfstæðismenn boða til fundar

MjallhvitirAf einhverjum óskiljanlegum ástæðum er Sjálfstæðisflokkurinn mikli mér hugleikinn um þessar mundir. Hann varð það ósjálfrátt í gær þegar póstkassi heimilisins var opnaður að loknum erfiðum vinnudegi. Með margvíslegum pósti, reikningum, ruslpósti, fréttabréfi og öðru pósti, mátti líta  fundarboð sem vakti óskipta ánægju mína - en þó væntanlega ekki með þeim hætti sem til var sáð af þeim sem fundarboðið sendu. Um var að ræða boð til framboðsfundar Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninga í maí komandi. En á bakhliðinni er stórkostleg ljósmynd sem hefur gefið mér tilefni til margvíslegra pælinga og ætla ég að leyfa lesendum þessa bloggs að deila þeim pælingum með mér. Eiginlega fór allt gærkvöldíð í að rýna í þetta merkilega fundarboð.

Fernt var það sem vakti athygli mína við lauslega greiningu á þessu vel myndskreytta boðskorti.

1.  Í hugann kom strax fallega ævintýrið um Mjallhvíti og Dvergana sjö þar sem Mjallhvít er í gervi Kjartans Ó. Stephensens og Árna M. Matthíesens en dvergarnir sjö í gervi sjö ágætra sjálfstæðismanna og sveitarstjórnarmanna sem ég þekki bara af góðu einu. 

2. Í huga minn kom einnig Jóhann Kr. Pétursson Svarfdælingur (1913-1984). Fannst mér kortið sýna tvöfaldan Jóhann risa Svarfdæling, ásamt sjö meðalstórum jafnháum einstaklingum.

3. Ljósmyndin á bakhlið fundarboðsins hafði þau áhrif á mig eins og um nævíska ljósmynd væri að ræða. Margt er það sem gerir myndina nævíska, ekki síst stærðarmunur fólksins á myndunum og líka það að engu líkara er að þessir miklu tvímenningar og litlu sjömenningar standi ökkladjúpt í lygnu stöðuvatni og brosi þar tannkremsbrosi til ljósmyndarans á árbakkanum.  Er kalt í vatninu?  Þetta hlýtur eiginlega að vera einsdæmi á heimsvísu því nævistar eru einkum starfandi í málaralist og fátítt að ljósmyndarar og auglýsingagerðamenn fótósjoppi sig inn á þetta stig.

4. Á myndina vantar tvímælalaust aðalmanninn sem líka ber göfugt ættarnafn og hefur setið í bygginganefnd Þjóðleikhússins. Það er eiginlega stórfurðulegt að maður sá sem á væntanlega eftir að bjarga okkur Sunnlendingum úr margvíslegum fjárhagsvandræðum og -svelti næstu fjögur árin skuli ekki prýða þessa fallegu ljósmynd af flokki brosandi sjálfstæðisfólks.  

Fyrir þá mörgu sjálfstæðismenn sem ég veit að lesa blogg mitt daglega af athygli skal hér upplýst að fundurinn verður kl. átta í kvöld í Tryggvaskála við Ölfusárbrú efri. Þar munu væntanlega mæta hinir stóru Kjartan og Árni M. ásamt öðrum smælingjum. Nóg pláss.


Árangur áfram með framsókn

Þennan flokk hef ég stutt frá því ég fór að fylgjast með stjórnmálum - og mun styðja árangur áfram.  Þessi flokkur er einhvernveginn svo laus við alla öfga, fordóma og forsjárhyggju.  Hafa málefni fjölskyldunnar í öndvegi og leggja áherslu á að hjól atvinnulífsins snúist áfram.  Góðærið lengi lifi! 
mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Bloggsíða Lýðs

Hver er Lýður?

Lýður Pálsson
Lýður Pálsson

Lýður Pálsson, safnstjóri á Eyrarbakka

lydurp@hotmail.com (ég sjálfur)

lydurp@byggdasafn.is (safnstjórinn)

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 58912

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband